30. júní 2004

*
Nokkuð hefur verið hringt og spurt um nýja skráningarkerfið hjá Reykjavíkurborg.
Þeir Reykvíkingar sem skrá sig á netsíðunni "Rafræn Reykjavík", tryggja sér þar með pláss á haustönn og eiga auk þess möguleika á viðameira námi en ella, með fleiri og lengri kennslustundum og tónfræðitímum að auki. Við hjá Gítarskólanum mælum eindregið með því að þetta sé gert.
Ef smellt er á skiltið "Rafræn Reykjavík" hér fyrir neðan er hægt að fá allar leiðbeiningar og skrá sig með einföldum hætti.

Bréf fræðslustjórans í Reykjavík til tónlistarnema:

Reykjavík, 28. maí 2004


Ágæti tónlistarskólanemi/forráðamaður

Efni: Innritun í tónlistarskóla fyrir skólaárið 2004-2005

Þetta bréf er sent til nemenda sem eru skráðir í tónlistarskóla á yfirstandandi skólaári og þeirra sem þegar hafa sótt um tónlistarskóla fyrir næsta skólaár. Nemendur sem ekki hyggjast halda áfram tónlistarnámi á næsta skólaári eru beðnir velvirðingar á þessu bréfi.

Borgarráð hefur ákveðið að hefja undirbúning og innleiðingu á þróunarverkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu og rafrænnar þjónustu undir formerkjunum Rafræn Reykjavík.

Innritunarkerfi tónlistarskóla í Reykjavík sem er fyrsta verkefnið á þessu sviði er nú tilbúið til prófunar. Til þess að skráningarkerfið virki strax sem best er hér með leitað til nemenda og forráðamanna nemenda yngri en 18 ára, sem hafa sótt um eða staðfest áframhaldandi nám í tónlistarskóla fyrir næsta skólaár, um að skrá sig inn í nýja innritunarkerfið. Athugið að þessi skráning er tilraun og breytir á engan hátt stöðu nemenda í skólunum eða á biðlistum en er fyrst og fremst til að aðstoða við innleiðingu kerfisins.

Leiðbeiningar um skráningu:
Smellið á hnappinn Rafræn Reykjavík til að stofna þjónustugátt hjá Reykjavíkurborg. Því næst er smellt á hnappinn Nýskráning og fyllt í umbeðin svæði. Sjá nánari leiðbeiningar á vefsvæðinu.

Ef gefið er upp netfang verður notendanafn og lykilorð sent samstundis og hægt að skrá sig strax inn í þjónustugáttina (þínar síður). Þar er hægt að sækja um nám í tónlistarskóla og fylgjast með stöðu umsóknarinnar. Foreldrar sækja um fyrir börn sín undir 18 ára aldri. Börn eru skráð hjá því foreldri/foreldrum sem þau hafa lögheimili hjá skv. þjóðskrá.

Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu eða lenda í vandræðum með skráningu geta fengið aðstoð í viðkomandi tónlistarskóla eða hjá Atla Guðlaugssyni, ráðgjafa í tónlistarfræðslu á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, s: 535 5000.


Virðingarfyllst,

Gerður G. Óskarsdóttir,
fræðslustjóri í Reykjavík



(c) Gítarskóli Íslands. Knúið með Blogger.